Biblían á einu ári


September 23


LJÓÐALJÓÐIN 1:1-17
1. Ljóðaljóðin, eftir Salómon.
2. Hann kyssi mig kossi munns síns, því að ást þín er betri en vín.
3. Yndislegur ilmur er af smyrslum þínum, nafn þitt eins og úthellt olía, þess vegna elska meyjarnar þig.
4. Drag mig á eftir þér! Við skulum flýta okkur! Konungurinn leiði mig í herbergi sín! Fögnum og gleðjumst yfir þér, vegsömum ást þína meir en vín - með réttu elska þær þig!
5. Svört er ég, og þó yndisleg, þér Jerúsalemdætur, sem tjöld Kedars, sem tjalddúkar Salómons.
6. Takið ekki til þess, að ég er svartleit, því að sólin hefir brennt mig. Synir móður minnar reiddust mér, þeir settu mig til að gæta víngarða - míns eigin víngarðs hefi ég eigi gætt.
7. Seg mér, þú sem sál mín elskar, hvar heldur þú hjörð þinni til haga, hvar bælir þú um hádegið? Því að hví skal ég vera eins og villuráfandi hjá hjörðum félaga þinna?
8. Ef þú veist það eigi, þú hin fegursta meðal kvenna, þá far þú og rek för hjarðarinnar og hald kiðum þínum til haga hjá kofum hirðanna.
9. Við hryssurnar fyrir vagni Faraós líki ég þér, vina mín.
10. Yndislegar eru kinnar þínar fléttum prýddar, háls þinn undir perluböndum.
11. Gullfestar viljum vér gjöra þér, settar silfurhnöppum.
12. Meðan konungurinn hvíldi á legubekk sínum, lagði ilminn af nardussmyrslum mínum.
13. Unnusti minn er sem myrrubelgur, sem hvílist milli brjósta mér.
14. Kypur-ber er unnusti minn mér, úr víngörðunum í Engedí.
15. Hversu fögur ertu, vina mín, hversu fögur ertu! Augu þín eru dúfuaugu.
16. Hversu fagur ertu, unnusti minn, já indæll. Já, iðgræn er hvíla okkar.
17. Bjálkarnir í húsi okkar eru sedrusviðir, þiljur okkar kýprestré.

LJÓÐALJÓÐIN 2:1-17
1. Ég er narsissa á Saronvöllum, lilja í dölunum.
2. Eins og lilja meðal þyrna, svo er vina mín meðal meyjanna.
3. Eins og apaldur meðal skógartrjánna, svo er unnusti minn meðal sveinanna. Í skugga hans þrái ég að sitja, og ávextir hans eru mér gómsætir.
4. Hann leiddi mig í vínhúsið og merki hans yfir mér var elska.
5. Endurnærið mig með rúsínukökum, hressið mig á eplum, því að ég er sjúk af ást.
6. Vinstri hönd hans sé undir höfði mér, en hin hægri umfaðmi mig!
7. Ég særi yður, Jerúsalemdætur, við skógargeiturnar, eða við hindirnar í haganum: Vekið ekki, vekið ekki elskuna, fyrr en hún sjálf vill.
8. Heyr, það er unnusti minn! Sjá, þar kemur hann, stökkvandi yfir fjöllin, hlaupandi yfir hæðirnar.
9. Unnusti minn er líkur skógargeit eða hindarkálfi. Hann stendur þegar bak við húsvegginn, horfir inn um gluggann, gægist inn um grindurnar.
10. Unnusti minn tekur til máls og segir við mig: "Stattu upp, vina mín, fríða mín, æ kom þú!
11. Því sjá, veturinn er liðinn, rigningarnar um garð gengnar, - á enda.
12. Blómin eru farin að sjást á jörðinni, tíminn til að sniðla vínviðinn er kominn, og kurr turtildúfunnar heyrist í landi voru.
13. Ávextir fíkjutrésins eru þegar farnir að þroskast, og ilminn leggur af blómstrandi vínviðnum. Stattu upp, vina mín, fríða mín, æ kom þú!
14. Dúfan mín í klettaskorunum, í fylgsni fjallhnúksins, lát mig sjá auglit þitt, lát mig heyra rödd þína! Því að rödd þín er sæt og auglit þitt yndislegt.
15. Náið fyrir oss refunum, yrðlingunum, sem skemma víngarðana, því að víngarðar vorir standa í blóma."
16. Unnusti minn er minn, og ég er hans, hans, sem heldur hjörð sinni til haga meðal liljanna.
17. Þangað til dagurinn verður svalur og skuggarnir flýja, snú þú aftur, unnusti minn, og líkst þú skógargeitinni eða hindarkálfi á anganfjöllum.

SÁLMARNIR 104:1-9
1. Lofa þú Drottin, sála mín! Drottinn, Guð minn, þú ert harla mikill. Þú ert klæddur hátign og vegsemd.
2. Þú hylur þig ljósi eins og skikkju, þenur himininn út eins og tjalddúk.
3. Þú hvelfir hásal þinn í vötnunum, gjörir ský að vagni þínum, og ferð um á vængjum vindarins.
4. Þú gjörir vindana að sendiboðum þínum, bálandi eld að þjónum þínum.
5. Þú grundvallar jörðina á undirstöðum hennar, svo að hún haggast eigi um aldur og ævi.
6. Hafflóðið huldi hana sem klæði, vötnin náðu upp yfir fjöllin,
7. en fyrir þinni ógnun flýðu þau, fyrir þrumurödd þinni hörfuðu þau undan með skelfingu.
8. Þau gengu yfir fjöllin, steyptust niður í dalina, þangað sem þú hafðir búið þeim stað.
9. Þú settir takmörk, sem þau mega ekki fara yfir, þau skulu ekki hylja jörðina framar.

ORÐSKVIÐIRNIR 24:15-16
15. Sit eigi, þú hinn óguðlegi, um bústað hins réttláta og eyðilegg ekki heimkynni hans,
16. því að sjö sinnum fellur hinn réttláti og stendur aftur upp, en óguðlegir steypast í ógæfu.

1 KORIN 11:17-34
17. En um leið og ég áminni um þetta, get ég ekki hrósað yður fyrir samkomur yðar, sem eru fremur til ills en góðs.
18. Í fyrsta lagi heyri ég, að flokkadráttur eigi sér stað á meðal yðar, er þér komið saman á safnaðarsamkomum, og því trúi ég að nokkru leyti.
19. Víst verður að vera flokkaskipting á meðal yðar, til þess að þeir yðar þekkist úr, sem hæfir eru.
20. Þegar þér komið saman er það ekki til þess að neyta máltíðar Drottins,
21. því að við borðhaldið hrifsar hver sína máltíð, svo einn er hungraður, en annar drekkur sig ölvaðan.
22. Hafið þér þá ekki hús til að eta og drekka í? Eða fyrirlítið þér söfnuð Guðs og gjörið þeim kinnroða, sem ekkert eiga? Hvað á ég að segja við yður? Á ég að hæla yður fyrir þetta? Nei, ég hæli yður ekki.
23. Því að ég hef meðtekið frá Drottni það, sem ég hef kennt yður: Nóttina, sem Drottinn Jesús var svikinn, tók hann brauð,
24. gjörði þakkir, braut það og sagði: "Þetta er minn líkami, sem er fyrir yður. Gjörið þetta í mína minningu."
25. Sömuleiðis tók hann og bikarinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: "Þessi bikar er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði. Gjörið þetta, svo oft sem þér drekkið, í mína minningu."
26. Svo oft sem þér etið þetta brauð og drekkið af bikarnum, boðið þér dauða Drottins, þangað til hann kemur.
27. Hver sem etur brauðið eða drekkur bikar Drottins óverðuglega, verður þess vegna sekur við líkama og blóð Drottins.
28. Hver maður prófi sjálfan sig og eti síðan af brauðinu og drekki af bikarnum.
29. Því að sá sem etur og drekkur án þess að dæma rétt um líkamann, hann etur og drekkur sjálfum sér til dóms.
30. Fyrir því eru svo margir sjúkir og krankir á meðal yðar, og allmargir deyja.
31. Ef vér dæmdum um sjálfa oss, yrðum vér ekki dæmdir.
32. En fyrst Drottinn dæmir oss, þá er hann að aga oss til þess að vér verðum ekki dæmdir sekir ásamt heiminum.
33. Fyrir því skuluð þér bíða hver eftir öðrum, bræður mínir, þegar þér komið saman til að matast.
34. Ef nokkur er hungraður, þá eti hann heima, til þess að samkomur yðar verði yður ekki til dóms. Annað mun ég segja til um, þegar ég kem.