Biblían á einu ári


Janúar 24


1 MÓSE 1:1-31
1. Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.
2. Jörðin var þá auð og tóm, og myrkur grúfði yfir djúpinu, og andi Guðs sveif yfir vötnunum.
3. Guð sagði: "Verði ljós!" Og það varð ljós.
4. Guð sá, að ljósið var gott, og Guð greindi ljósið frá myrkrinu.
5. Og Guð kallaði ljósið dag, en myrkrið kallaði hann nótt. Það varð kveld og það varð morgunn, hinn fyrsti dagur.
6. Guð sagði: "Verði festing milli vatnanna, og hún greini vötn frá vötnum."
7. Þá gjörði Guð festinguna og greindi vötnin, sem voru undir festingunni, frá þeim vötnum, sem voru yfir henni. Og það varð svo.
8. Og Guð kallaði festinguna himin. Það varð kveld og það varð morgunn, hinn annar dagur.
9. Guð sagði: "Safnist vötnin undir himninum í einn stað, svo að þurrlendið sjáist." Og það varð svo.
10. Guð kallaði þurrlendið jörð, en safn vatnanna kallaði hann sjó. Og Guð sá, að það var gott.
11. Guð sagði: "Láti jörðin af sér spretta græn grös, sáðjurtir og aldintré, sem hvert beri ávöxt eftir sinni tegund með sæði í á jörðinni." Og það varð svo.
12. Jörðin lét af sér spretta græn grös, jurtir með sæði í, hverja eftir sinni tegund, og aldintré með sæði í sér, hvert eftir sinni tegund. Og Guð sá, að það var gott.
13. Það varð kveld og það varð morgunn, hinn þriðji dagur.
14. Guð sagði: "Verði ljós á festingu himinsins, að þau greini dag frá nóttu og séu til tákns og til að marka tíðir, daga og ár.
15. Og þau séu ljós á festingu himinsins til að lýsa jörðina." Og það varð svo.
16. Guð gjörði tvö stóru ljósin: hið stærra ljósið til að ráða degi og hið minna ljósið til að ráða nóttu, svo og stjörnurnar.
17. Og Guð setti þau á festingu himinsins, að þau skyldu lýsa jörðinni
18. og ráða degi og nóttu og greina sundur ljós og myrkur. Og Guð sá, að það var gott.
19. Það varð kveld og það varð morgunn, hinn fjórði dagur.
20. Guð sagði: "Vötnin verði kvik af lifandi skepnum, og fuglar fljúgi yfir jörðina undir festingu himinsins."
21. Þá skapaði Guð hin stóru lagardýr og allar hinar lifandi skepnur, sem hrærast og vötnin eru kvik af, eftir þeirra tegund, og alla fleyga fugla eftir þeirra tegund. Og Guð sá, að það var gott.
22. Og Guð blessaði þau og sagði: "Frjóvgist og vaxið og fyllið vötn sjávarins, og fuglum fjölgi á jörðinni."
23. Það varð kveld og það varð morgunn, hinn fimmti dagur.
24. Guð sagði: "Jörðin leiði fram lifandi skepnur, hverja eftir sinni tegund: fénað, skriðkvikindi og villidýr, hvert eftir sinni tegund." Og það varð svo.
25. Guð gjörði villidýrin, hvert eftir sinni tegund, fénaðinn eftir sinni tegund og alls konar skriðkvikindi jarðarinnar eftir sinni tegund. Og Guð sá, að það var gott.
26. Guð sagði: "Vér viljum gjöra manninn eftir vorri mynd, líkan oss, og hann skal drottna yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir fénaðinum og yfir villidýrunum og yfir öllum skriðkvikindum, sem skríða á jörðinni."
27. Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu.
28. Og Guð blessaði þau, og Guð sagði við þau: "Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni."
29. Og Guð sagði: "Sjá, ég gef ykkur alls konar sáðberandi jurtir á allri jörðinni og alls konar tré, sem bera ávöxtu með sæði í. Það sé ykkur til fæðu.
30. Og öllum villidýrum og öllum fuglum loftsins og öllum skriðkvikindum á jörðinni, öllu því, sem hefir lifandi sál, gef ég öll grös og jurtir til fæðu." Og það varð svo.
31. Og Guð leit allt, sem hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott. Það varð kveld og það varð morgunn, hinn sjötti dagur.

1 MÓSE 2:1-25
1. Þannig algjörðist himinn og jörð og öll þeirra prýði.
2. Guð lauk á hinum sjöunda degi verki sínu, er hann hafði gjört, og hvíldist hinn sjöunda dag af öllu verki sínu, er hann hafði gjört.
3. Og Guð blessaði hinn sjöunda dag og helgaði hann, því að á honum hvíldist Guð af verki sínu, sem hann hafði skapað og gjört.
4. Þetta er sagan um uppruna himins og jarðar, er þau voru sköpuð.
5. Þegar Drottinn Guð gjörði jörðina og himininn, var enn alls enginn runnur merkurinnar til á jörðinni, og engar jurtir spruttu enn á mörkinni, því að Drottinn Guð hafði ekki enn látið rigna á jörðina og engir menn voru til þess að yrkja hana,
6. en þoku lagði upp af jörðinni, og vökvaði hún allt yfirborð jarðarinnar.
7. Þá myndaði Drottinn Guð manninn af leiri jarðar og blés lífsanda í nasir hans, og þannig varð maðurinn lifandi sál.
8. Drottinn Guð plantaði aldingarð í Eden langt austur frá og setti þar manninn, sem hann hafði myndað.
9. Og Drottinn Guð lét upp vaxa af jörðinni alls konar tré, sem voru girnileg á að líta og góð að eta af, og lífsins tré í miðjum aldingarðinum og skilningstréð góðs og ills.
10. Fljót rann frá Eden til að vökva aldingarðinn, og þaðan kvíslaðist það og varð að fjórum stórám.
11. Hin fyrsta heitir Píson; hún fellur um allt landið Havíla, þar sem gullið fæst.
12. Og gull lands þess er gott. Þar fæst bedolakharpeis og sjóamsteinar.
13. Önnur stóráin heitir Gíhon. Hún fellur um allt Kúsland.
14. Þriðja stóráin heitir Kíddekel. Hún fellur fyrir vestan Assýríu. Fjórða stóráin er Efrat.
15. Þá tók Drottinn Guð manninn og setti hann í aldingarðinn Eden til að yrkja hann og gæta hans.
16. Og Drottinn Guð bauð manninum og sagði: "Af öllum trjám í aldingarðinum máttu eta eftir vild,
17. en af skilningstrénu góðs og ills mátt þú ekki eta, því að jafnskjótt og þú etur af því, skalt þú vissulega deyja."
18. Drottinn Guð sagði: "Eigi er það gott, að maðurinn sé einsamall. Ég vil gjöra honum meðhjálp við hans hæfi."
19. Þá myndaði Drottinn Guð af jörðinni öll dýr merkurinnar og alla fugla loftsins og lét þau koma fyrir manninn til þess að sjá, hvað hann nefndi þau. Og hvert það heiti, sem maðurinn gæfi hinum lifandi skepnum, skyldi vera nafn þeirra.
20. Og maðurinn gaf nafn öllum fénaðinum og fuglum loftsins og öllum dýrum merkurinnar. En meðhjálp fyrir mann fann hann enga við sitt hæfi.
21. Þá lét Drottinn Guð fastan svefn falla á manninn. Og er hann var sofnaður, tók hann eitt af rifjum hans og fyllti aftur með holdi.
22. Og Drottinn Guð myndaði konu af rifinu, er hann hafði tekið úr manninum, og leiddi hana til mannsins.
23. Þá sagði maðurinn: "Þetta er loks bein af mínum beinum og hold af mínu holdi. Hún skal karlynja kallast, af því að hún er af karlmanni tekin."
24. Þess vegna yfirgefur maður föður sinn og móður sína og býr við eiginkonu sína, svo að þau verði eitt hold.
25. Og þau voru bæði nakin, maðurinn og kona hans, og blygðuðust sín ekki.

SÁLMARNIR 1:1-6
1. Sæll er sá maður, er eigi fer að ráðum óguðlegra, eigi gengur á vegi syndaranna og eigi situr í hópi þeirra, er hafa Guð að háði,
2. heldur hefir yndi af lögmáli Drottins og hugleiðir lögmál hans dag og nótt.
3. Hann er sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki. Allt er hann gjörir lánast honum.
4. Svo fer eigi hinum óguðlega, heldur sem sáðum, er vindur feykir.
5. Þess vegna munu hinir óguðlegu eigi standast í dóminum og syndugir eigi í söfnuði réttlátra.
6. Því að Drottinn þekkir veg réttlátra, en vegur óguðlegra endar í vegleysu.

ORÐSKVIÐIRNIR 1:1-7
1. Orðskviðir Salómons Davíðssonar, Ísraels konungs,
2. til þess að menn kynnist visku og aga, læri að skilja skynsamleg orð,
3. til þess að menn fái viturlegan aga, réttlæti, réttvísi og ráðvendni,
4. til þess að þeir veiti hinum óreyndu hyggindi, unglingum þekking og aðgætni, -
5. hinn vitri hlýðir á og eykur lærdóm sinn, og hinn hyggni nemur hollar lífsreglur -
6. til þess að menn skilji orðskviði og líkingamál, orð spekinganna og gátur þeirra.
7. Ótti Drottins er upphaf þekkingar, visku og aga fyrirlíta afglapar einir.

MATTEUSARGUÐSPJALL 1:1-25
1. Ættartala Jesú Krists, sonar Davíðs, sonar Abrahams.
2. Abraham gat Ísak, Ísak gat Jakob, Jakob gat Júda og bræður hans.
3. Júda gat Peres og Sara við Tamar, Peres gat Esrom, Esrom gat Ram,
4. Ram gat Ammínadab, Ammínadab gat Nakson, Nakson gat Salmon,
5. Salmon gat Bóas við Rahab, og Bóas gat Óbeð við Rut. Óbeð gat Ísaí,
6. og Ísaí gat Davíð konung. Davíð gat Salómon við konu Úría,
7. Salómon gat Róbóam, Róbóam gat Abía, Abía gat Asaf,
8. Asaf gat Jósafat, Jósafat gat Jóram, Jóram gat Ússía,
9. Ússía gat Jótam, Jótam gat Akas, Akas gat Esekía,
10. Esekía gat Manasse, Manasse gat Amos, Amos gat Jósía.
11. Jósía gat Jekonja og bræður hans á tíma herleiðingarinnar til Babýlonar.
12. Eftir herleiðinguna til Babýlonar gat Jekonja Sealtíel, Sealtíel gat Serúbabel,
13. Serúbabel gat Abíúd, Abíúd gat Eljakím, Eljakím gat Asór,
14. Asór gat Sadók, Sadók gat Akím, Akím gat Elíúd,
15. Elíúd gat Eleasar, Eleasar gat Mattan, Mattan gat Jakob,
16. og Jakob gat Jósef, mann Maríu, en hún ól Jesú, sem kallast Kristur.
17. Þannig eru alls fjórtán ættliðir frá Abraham til Davíðs, fjórtán ættliðir frá Daví� fram að herleiðingunni til Babýlonar og fjórtán ættliðir frá herleiðingunni til Krists.
18. Fæðing Jesú Krists varð með þessum atburðum: María, móðir hans, var föstnuð Jósef. En áður en þau komu saman, reyndist hún þunguð af heilögum anda.
19. Jósef, festarmaður hennar, sem var grandvar, vildi ekki gjöra henni opinbera minnkun og hugðist skilja við hana í kyrrþey.
20. Hann hafði ráðið þetta með sér, en þá vitraðist honum engill Drottins í draumi og sagði: "Jósef, sonur Davíðs, óttastu ekki að taka til þín Maríu, heitkonu þína. Barnið, sem hún gengur með, er af heilögum anda.
21. Hún mun son ala, og hann skaltu láta heita Jesú, því að hann mun frelsa lýð sinn frá syndum þeirra."
22. Allt varð þetta til þess, að rætast skyldu orð Drottins fyrir munn spámannsins:
23. "Sjá, mærin mun þunguð verða og son ala. Nafn hans mun vera Immanúel," það þýðir: Guð með oss.
24. Þegar Jósef vaknaði, gjörði hann eins og engill Drottins hafði boðið honum og tók konu sína til sín.
25. Hann kenndi hennar ekki fyrr en hún hafði alið son. Og hann gaf honum nafnið JESÚS.