Biblían á einu ári
Maí 23


1 SAMÚELSBÓK 4:1-21
1. Orð Samúels kom til alls Ísraels. Og Ísrael fór í móti Filistum til hernaðar, og settu þeir herbúðir sínar hjá Ebeneser, en Filistar settu herbúðir sínar hjá Afek.
2. Og Filistar fylktu liði sínu gegn Ísrael, og hallaðist bardaginn: Ísrael beið ósigur fyrir Filistum, og þeir felldu í valinn á vígvellinum um fjögur þúsund manns.
3. Og er lýðurinn kom aftur í herbúðirnar, þá sögðu öldungar Ísraels: "Hví hefir Drottinn látið oss bíða ósigur í dag fyrir Filistum? Vér skulum sækja sáttmálsörk Drottins til Síló, og þegar hún er komin hér meðal vor, mun hún frelsa oss af hendi óvina vorra."
4. Þá sendi lýðurinn menn til Síló, og þeir tóku þaðan sáttmálsörk Drottins allsherjar, hans sem situr uppi yfir kerúbunum. Báðir synir Elí, þeir Hofní og Pínehas, fóru með sáttmálsörk Guðs.
5. En þegar sáttmálsörk Drottins kom í herbúðirnar, þá laust allur Ísrael upp svo miklu fagnaðarópi, að jörðin dundi.
6. Þegar Filistar heyrðu óminn af fagnaðarópinu, sögðu þeir: "Hvað merkir þetta glymjandi fagnaðaróp í herbúðum Hebrea?" Og er þeir urðu þess vísir, að örk Drottins væri komin í herbúðirnar,
7. þá urðu þeir skelkaðir, því að þeir hugsuðu: "Guð er kominn til þeirra í herbúðirnar," og sögðu: "Vei oss, því að slíkt hefir aldrei áður til borið!
8. Vei oss! Hver mun frelsa oss af hendi þessara voldugu guða? Það voru þessir guðir, sem lustu Egypta með alls konar plágum í eyðimörkinni.
9. Herðið ykkur upp og verið menn, Filistar, svo að þér verðið ekki ánauðugir Hebreum, eins og þeir hafa verið yður ánauðugir. Verið því menn og berjist!"
10. Og Filistar börðust, og Ísrael hafði ósigur, og þeir flýðu, hver heim til sín. Og mannfallið var mjög mikið: féllu af Ísrael þrjátíu þúsundir fótgangandi manna.
11. Og Guðs örk var tekin, og báðir synir Elí, þeir Hofní og Pínehas, létu lífið.
12. Benjamíníti nokkur hljóp úr orustunni og kom til Síló þennan sama dag í rifnum klæðum og með mold á höfði sér.
13. Og er hann kom, sjá, þá sat Elí á stól við hliðið og starði út á veginn, því að hann var hugsjúkur um örk Guðs. Og er maðurinn kom að segja þessi tíðindi í borginni, þá tók öll borgin að kveina.
14. En er Elí heyrði óminn af harmakveininu, sagði hann: "Hvað merkir þessi háreysti?" Og maðurinn hraðaði sér og kom og sagði Elí tíðindin.
15. En Elí var níutíu og átta ára gamall og augu hans stirðnuð, svo að hann mátti ekki sjá.
16. Og maðurinn sagði við Elí: "Ég kem úr orustunni, ég flýði í dag úr orustunni." Þá sagði Elí: "Hvernig hefir það gengið, sonur minn?"
17. Maðurinn, sem tíðindin flutti, svaraði og mælti: "Ísrael er flúinn fyrir Filistum, og líka var mikið mannfall meðal fólksins, og einnig eru báðir synir þínir, þeir Hofní og Pínehas, dauðir, og Guðs örk er tekin."
18. En er hann nefndi Guðs örk, þá féll Elí aftur á bak úr stólnum við hliðið og hálsbrotnaði, og varð það hans bani, því að hann var gamall maður og þungur. En hann hafði verið dómari í Ísrael í fjörutíu ár.
19. Tengdadóttir hans, kona Pínehasar, var þunguð og komin að falli, og er hún heyrði tíðindin, að Guðs örk væri tekin og tengdafaðir hennar og maður dauðir, þá hné hún niður og fæddi, því að jóðsóttin kom yfir hana.
20. En er hún var komin í dauðann, sögðu konurnar, er yfir henni stóðu: "Óttast ekki, því að þú hefir son fætt." En hún svaraði engu og gaf því engan gaum,
21. heldur nefndi sveininn Íkabóð og sagði: "Horfin er vegsemdin frá Ísrael" - vegna þess að Guðs örk var tekin, og vegna tengdaföður síns og manns síns.

1 SAMÚELSBÓK 5:1-12
1. Filistar höfðu tekið Guðs örk og flutt hana frá Ebeneser til Asdód.
2. Nú tóku þeir Guðs örk og fluttu hana í musteri Dagóns og settu hana við hliðina á Dagón.
3. En er Asdód-menn risu árla morguninn eftir, sjá, þá lá Dagón á grúfu á gólfinu fyrir framan örk Drottins. Tóku þeir þá Dagón og settu hann aftur á sinn stað.
4. Og þeir risu árla um morguninn daginn eftir, og sjá, þá lá Dagón á grúfu á gólfinu fyrir framan örk Drottins. Höfuð Dagóns og báðar hendur voru brotnar af honum og lágu á þröskuldinum, bolurinn einn var eftir af Dagón.
5. (Fyrir því stíga prestar Dagóns og allir þeir, sem ganga inn í musteri Dagóns, ekki á þröskuld Dagóns í Asdód, og helst það enn í dag.)
6. Hönd Drottins lá þungt á Asdód-mönnum, hann skelfdi þá og sló þá með kýlum, bæði Asdód og héraðið umhverfis.
7. En þegar Asdód-búar sáu, að þetta var þannig, þá sögðu þeir: "Örk Ísraels Guðs skal eigi lengur hjá oss vera, því að hörð er hönd hans á oss og á Dagón, guði vorum."
8. Þá gjörðu þeir út sendimenn og söfnuðu saman öllum höfðingjum Filista til sín og sögðu: "Hvað eigum vér að gjöra við örk Ísraels Guðs?" Þeir sögðu: "Flytja skal örk Ísraels Guðs til Gat." Og þeir fluttu örk Ísraels Guðs þangað.
9. En eftir að þeir höfðu flutt hana þangað, þá kom hönd Drottins yfir borgina með feikna mikilli skelfingu. Hann sló borgarbúa, bæði smáa og stóra, svo að kýli brutust út um þá.
10. Þá sendu þeir Guðs örk til Ekron. En er Guðs örk kom til Ekron, þá kveinuðu Ekroningar og sögðu: "Þeir hafa flutt til mín örk Ísraels Guðs til þess að deyða mig og fólk mitt!"
11. Þá gjörðu þeir út sendimenn og söfnuðu saman öllum höfðingjum Filista og sögðu: "Sendið burt örk Ísraels Guðs, svo að hún komist á sinn stað og deyði mig ekki og fólk mitt." Því að dauðans angist hafði gripið alla borgina. Hönd Guðs lá þar mjög þungt á.
12. Þeir menn, sem eigi dóu, urðu slegnir kýlum, og kvein borgarinnar sté upp til himins.

SÁLMARNIR 54:1-7
1. Til söngstjórans. Með strengjaleik. Maskíl eftir Davíð, þá er Sifítar komu og sögðu við Sál: Veistu að Davíð felur sig hjá oss? Hjálpa mér, Guð, með nafni þínu, rétt hlut minn með mætti þínum.
2. Guð, heyr þú bæn mína, ljá eyra orðum munns míns.
3. Því að erlendir fjandmenn hefjast gegn mér og ofríkismenn sækjast eftir lífi mínu, eigi hafa þeir Guð fyrir augum.
4. Sjá, Guð er mér hjálpari, það er Drottinn er styður mig.
5. Hið illa mun fjandmönnum mínum í koll koma, lát þá hverfa af trúfesti þinni.
6. Þá vil ég færa þér sjálfviljafórnir, lofa nafn þitt, Drottinn, að það sé gott,
7. því að það hefir frelsað mig úr hverri neyð, og auga mitt hefir svalað sér á að horfa á óvini mína.

ORÐSKVIÐIRNIR 15:12-13
12. Spottaranum er ekki vel við, að vandað sé um við hann, til viturra manna fer hann ekki.
13. Glatt hjarta gjörir andlitið hýrlegt, en sé hryggð í hjarta, er hugurinn dapur.

LÚKASARGUÐSPJALL 21:1-19
1. Þá leit hann upp og sá auðmenn leggja gjafir sínar í fjárhirsluna.
2. Hann sá og ekkju eina fátæka leggja þar tvo smápeninga.
3. Þá sagði hann: "Ég segi yður með sanni, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir.
4. Hinir allir lögðu í sjóðinn af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum, alla björg sína."
5. Einhverjir höfðu orð á, að helgidómurinn væri prýddur fögrum steinum og heitgjöfum. Þá sagði Jesús:
6. "Þér horfið á þetta, en þeir dagar munu koma, að hér stendur ekki eftir steinn yfir steini, er eigi sé niður brotinn."
7. En þeir spurðu hann: "Meistari, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn þess, að það sé að koma fram?"
8. Hann svaraði: "Varist að láta leiða yður í villu. Margir munu koma í mínu nafni og segja: ,Það er ég!' og ,Tíminn er í nánd!' Fylgið þeim ekki.
9. En þegar þér spyrjið hernað og upphlaup, þá skelfist ekki. Þetta á undan að fara, en endirinn kemur ekki samstundis."
10. Síðan sagði hann við þá: "Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki,
11. þá verða landskjálftar miklir og drepsóttir og hungur á ýmsum stöðum, en ógnir og tákn mikil á himni.
12. En á undan öllu þessu munu menn leggja hendur á yður, ofsækja yður, færa yður fyrir samkundur og í fangelsi og draga yður fyrir konunga og landshöfðingja sakir nafns míns.
13. Þetta veitir yður tækifæri til vitnisburðar.
14. En festið það vel í huga að vera ekki fyrirfram að hugsa um, hvernig þér eigið að verjast,
15. því ég mun gefa yður orð og visku, sem engir mótstöðumenn yðar fá staðið í gegn né hrakið.
16. Jafnvel foreldrar og bræður, frændur og vinir munu framselja yður, og sumir yðar munu líflátnir.
17. Og þér munuð hataðir af öllum vegna nafns míns,
18. en ekki mun týnast eitt hár á höfði yðar.
19. Verið þrautseigir og þér munuð ávinna sálir yðar.