Biblían á einu ári
Júlí 18


1 KRONÍKUBÓK 26:1-32
1. Að því er snertir hliðvarðaflokkana, þá voru þar af Kóraítum: Meselemja Kóreson af Asafsniðjum.
2. En synir Meselemja voru: Sakaría, frumgetningurinn, annar Jedíael, þriðji Sebadja, fjórði Jatníel,
3. fimmti Elam, sjötti Jóhanan, sjöundi Elíóenaí.
4. Synir Óbeð Edóms voru: Semaja, frumgetningurinn, annar Jósabad, þriðji Jóa, fjórði Sakar, fimmti Netaneel,
5. sjötti Ammíel, sjöundi Íssakar, áttundi Pegúlletaí, því að Guð hafði blessað hann.
6. En Semaja, syni hans, fæddust og synir, er réðu í ættum sínum, því að þeir voru hinir röskustu menn.
7. Synir Semaja voru: Otní, Refael, Óbeð og Elsabat. Bræður þeirra voru Elíhú og Semakja, dugandi menn.
8. Allir þessir voru af niðjum Óbeð Edóms, þeir og synir þeirra og bræður, dugandi menn, vel hæfir til þjónustunnar, sextíu og tveir alls frá Óbeð Edóm.
9. Meselemja átti og sonu og bræður, dugandi menn, átján alls.
10. Synir Hósa, er var af Meraríniðjum, voru: Simrí höfðingi; þótt eigi væri hann frumgetningurinn, þá gjörði faðir hans hann að höfðingja;
11. annar Hilkía, þriðji Tebalja, fjórði Sakaría. Synir og bræður Hósa voru þrettán alls.
12. Þessum hliðvarðaflokkum eftir ætthöfðingjum hlotnaðist starf við þjónustuna í húsi Drottins, þeim sem frændum þeirra.
13. Og menn vörpuðu hlutkesti um hvert hlið fyrir sig, eftir ættum, yngri sem eldri.
14. Fyrir hliðið gegnt austri féll hluturinn á Selemja. Menn vörpuðu og hlutkesti fyrir Sakaría son hans, hygginn ráðgjafa, og féll hans hlutur á hliðið gegnt norðri,
15. fyrir Óbeð Edóm gegnt suðri, og fyrir son hans á geymsluhúsið,
16. fyrir Súppím og Hósa gegnt vestri við Sallekethliðið, við götuna, sem liggur upp eftir, hver varðstöðin við aðra.
17. Við hliðið gegnt austri voru sex levítar, gegnt norðri fjórir dag hvern, gegnt suðri fjórir dag hvern, og við geymsluhúsið tveir og tveir.
18. Við Parbar gegnt vestri: fjórir fyrir götuna, tveir fyrir Parbar.
19. Þessir eru hliðvarðaflokkarnir af Kóraítaniðjum og af Meraríniðjum.
20. Levítar frændur þeirra höfðu umsjón með fjársjóðum Guðs húss og með helgigjafafjársjóðunum.
21. Niðjar Laedans, niðjar Gersoníta, Laedans, ætthöfðingjar Laedansættar Gersoníta, Jehíelítar,
22. niðjar Jehíelíta, Setam og Jóel bróðir hans höfðu umsjón með fjársjóðum í húsi Drottins.
23. Að því er snertir Amramíta, Jíseharíta, Hebroníta og Ússíelíta,
24. þá var Sebúel Gersómsson, Mósesonar, yfirumsjónarmaður yfir fjársjóðunum.
25. Og að því er snertir frændur þeirra frá Elíeser, þá var Rehabja sonur hans, hans son Jesaja, hans son Jóram, hans son Sikrí, hans son Selómít.
26. Höfðu þeir Selómít þessi og bræður hans umsjón með öllum helgigjafafjársjóðunum, þeim er Davíð konungur og ætthöfðingjarnir, þúsundhöfðingjarnir og hundraðshöfðingjarnir og herforingjarnir höfðu helgað -
27. úr ófriði og af herfangi höfðu þeir helgað það til þess að endurbæta með musteri Drottins,
28. og allt, er Samúel sjáandi, Sál Kísson, Abner Nersson og Jóab Serújuson höfðu helgað, allt hið helgaða, var undir umsjón Selómíts og bræðra hans.
29. Af Jíseharítum höfðu þeir Kenanja og synir hans á hendi hin veraldlegu störf í Ísrael, sem embættismenn og dómarar.
30. Af Hebronítum höfðu þeir Hasabja og frændur hans, dugandi menn, seytján hundruð alls, á hendi stjórnarstörf Ísraels hérna megin Jórdanar, að vestanverðu. Stóðu þeir fyrir öllum störfum Drottins og þjónustu konungs.
31. Til Hebroníta taldist Jería, höfðingi Hebroníta eftir kyni þeirra og ættum - voru þeir kannaðir á fertugasta ríkisári Davíðs, og fundust meðal þeirra hinir röskustu menn í Jaser í Gíleað -
32. og frændur hans, röskir menn, tvö þúsund og sjö hundruð ætthöfðingjar alls. Setti Davíð konungur þá yfir Rúbensniðja, Gaðsniðja og hálfa kynkvísl Manasseniðja, að því er snertir öll erindi Guðs og erindi konungsins.

1 KRONÍKUBÓK 27:1-34
1. Þessir eru Ísraelsmenn eftir tölu þeirra, ætthöfðingjar, þúsundhöfðingjar, hundraðshöfðingjar og starfsmenn þeirra, er þjónuðu konungi í öllum flokkastörfum, er komu og fóru mánuð eftir mánuð, alla mánuði ársins. Voru í flokki hverjum tuttugu og fjögur þúsund manns.
2. Yfir fyrsta flokki, í fyrsta mánuði, var Jasóbeam Sabdíelsson, og voru tuttugu og fjögur þúsund manns í flokki hans.
3. Var hann af Peresniðjum og fyrir öllum herforingjum í fyrsta mánuði.
4. Yfir flokki annars mánaðarins var Eleasar Dódaíson, Ahóhíti. Fyrir flokki hans var höfðinginn Miklót, og voru tuttugu og fjögur þúsund manns í flokki hans.
5. Þriðji hershöfðinginn, í þriðja mánuðinum, var Benaja, sonur Jójada prests, höfðingi, og voru tuttugu og fjögur þúsund manns í flokki hans.
6. Var Benaja þessi kappi meðal þeirra þrjátíu og fyrir þeim þrjátíu. Var Ammísabad sonur hans fyrir flokki hans.
7. Fjórði var Asahel, bróðir Jóabs, fjórða mánuðinn, og eftir hann Sebadja sonur hans. Voru tuttugu og fjögur þúsund manns í flokki hans.
8. Fimmti hershöfðinginn var Samhút Jísraíti, fimmta mánuðinn. Voru tuttugu og fjögur þúsund manns í flokki hans.
9. Sjötti var Íra Íkkesson frá Tekóa, sjötta mánuðinn. Voru tuttugu og fjögur þúsund manns í flokki hans.
10. Sjöundi var Heles Pelóníti af Efraímsniðjum, sjöunda mánuðinn. Voru tuttugu og fjögur þúsund manns í flokki hans.
11. Áttundi var Sibbekaí Húsatíti af Seraítum, áttunda mánuðinn. Voru tuttugu og fjögur þúsund manns í flokki hans.
12. Níundi var Abíeser frá Anatót af Benjamínsniðjum, níunda mánuðinn. Voru tuttugu og fjögur þúsund manns í flokki hans.
13. Tíundi var Maharaí frá Netófa af Seraítum, tíunda mánuðinn. Voru tuttugu og fjögur þúsund manns í flokki hans.
14. Ellefti var Benaja frá Píraton af Efraímsniðjum, ellefta mánuðinn. Voru tuttugu og fjögur þúsund manns í flokki hans.
15. Tólfti var Heldaí frá Netófa af ætt Otníels, tólfta mánuðinn, og voru tuttugu og fjögur þúsund manns í flokki hans.
16. Þessir voru yfir kynkvíslum Ísraels: Af Rúbensniðjum var höfðingi Elíeser Síkríson. Af Símeonsniðjum Sefatja Maakason.
17. Af Leví Hasabja Kemúelsson. Af Aron Sadók.
18. Af Júda Elíhú, einn af bræðrum Davíðs. Af Íssakar Omrí Míkaelsson.
19. Af Sebúlon Jismaja Óbadíason. Af Naftalí Jerímót Asríelsson.
20. Af Efraímsniðjum Hósea Asasjason. Af hálfri Manassekynkvísl Jóel Pedajason.
21. Af hálfri Manassekynkvísl í Gíleað Íddó Sakaríason. Af Benjamín Jaasíel Abnersson.
22. Af Dan Asareel Jeróhamsson. Þessir voru höfðingjar Ísraelskynkvísla.
23. En Davíð lét ekki telja þá, er yngri voru en tvítugir, því að Drottinn hafði heitið því að gjöra Ísraelsmenn marga sem stjörnur himins.
24. Hafði Jóab Serújuson byrjað á að telja, en eigi lokið við, því að sakir þessa kom reiði yfir Ísrael, og talan var eigi skráð með tölunum í árbókum Davíðs konungs.
25. Asmavet Adíelsson hafði umsjón með fjársjóðum konungs og Jónatan Ússíasson með eignunum á mörkinni, í borgunum, þorpunum og köstulunum.
26. Esrí Kelúbsson hafði umsjón með jarðyrkjumönnum, er störfuðu að akuryrkju,
27. Símeí frá Rama yfir víngörðunum, og Sabdí Sifmíti yfir vínforðanum í víngörðunum,
28. Baal Hanan frá Geder yfir olíutrjánum og mórberjatrjánum á láglendinu og Jóas yfir olíuforðanum.
29. Yfir nautunum, er gengu á Saron, hafði Sítraí frá Saron umsjón, yfir nautunum, er gengu í dölunum, Safat Adlaíson,
30. yfir úlföldunum Óbíl Ísmaelíti, yfir ösnunum Jehdeja frá Merónót,
31. yfir sauðfénaðinum Jasis Hagríti. Allir þessir voru umráðamenn yfir eignum Davíðs konungs.
32. Jónatan, föðurbróðir Davíðs, var ráðgjafi. Var hann vitur maður og fróður. Jehíel Hakmóníson var með sonum konungs,
33. Akítófel var ráðgjafi konungs og Húsaí Arkíti var stallari konungs.
34. Næstur Akítófel gekk Jójada Benajason og Abjatar. Jóab var hershöfðingi konungs.

SÁLMARNIR 78:56-66
56. En þeir freistuðu í þrjósku sinni Guðs hins hæsta og gættu eigi vitnisburða hans.
57. Þeir viku af leið, rufu trúnað sinn, eins og feður þeirra, brugðust eins og svikull bogi.
58. Þeir egndu hann til reiði með fórnarhæðum sínum, vöktu vandlæti hans með skurðgoðum sínum.
59. Guð heyrði það og reiddist og fékk mikla óbeit á Ísrael.
60. Hann hafnaði bústaðnum í Síló, tjaldi því, er hann hafði reist meðal mannanna,
61. hann ofurseldi hernáminu vegsemd sína og fjandmannshendi prýði sína.
62. Hann seldi lýð sinn undir sverðseggjar og reiddist arfleifð sinni.
63. Æskumönnum hans eyddi eldurinn og meyjar hans misstu brúðsöngs síns.
64. Prestar hans féllu fyrir sverðseggjum, og ekkjur hans fengu engan líksöng flutt.
65. Þá vaknaði Drottinn eins og af svefni, eins og hetja, sem hefir látið sigrast af víni.
66. Hann barði fjandmenn sína á bakhlutina, lét þá sæta eilífri háðung.

ORÐSKVIÐIRNIR 20:4-5
4. Letinginn plægir ekki á haustin, fyrir því leitar hann um uppskerutímann og grípur í tómt.
5. Ráðin í hjarta mannsins eru sem djúp vötn, og hygginn maður eys þar af.

POSTULASAGAN 10:1-23
1. Maður nokkur var í Sesareu, Kornelíus að nafni, hundraðshöfðingi í ítölsku hersveitinni.
2. Hann var trúmaður og dýrkaði Guð og heimafólk hans allt. Gaf hann lýðnum miklar ölmusur og var jafnan á bæn til Guðs.
3. Dag einn um nón sá hann berlega í sýn engil Guðs koma inn til sín, er sagði við hann: "Kornelíus!"
4. Hann starði á hann, varð óttasleginn og sagði: "Hvað er það, herra?" Engillinn svaraði: "Bænir þínar og ölmusur eru stignar upp til Guðs, og hann minnist þeirra.
5. Send þú nú menn til Joppe og lát sækja Símon nokkurn, er kallast Pétur.
6. Hann gistir hjá Símoni nokkrum sútara, sem á hús við sjóinn."
7. Þegar engillinn, sem talaði við hann, var farinn, kallaði hann á tvo heimamenn sína og guðrækinn hermann, einn þeirra, er honum voru handgengnir,
8. sagði þeim frá öllu og sendi þá til Joppe.
9. Daginn eftir, er þeir voru á leiðinni og nálguðust bæinn, gekk Pétur upp á húsþakið um hádegi til að biðjast fyrir.
10. Kenndi hann þá hungurs og vildi matast. En meðan verið var að matreiða, varð hann frá sér numinn,
11. sá himininn opinn og hlut nokkurn koma niður, líkan stórum dúki. Var hann látinn síga til jarðar á fjórum skautum.
12. Þar voru á alls kyns ferfætt dýr, skriðdýr jarðar, svo og fuglar himins.
13. Og honum barst rödd: "Slátra nú, Pétur, og et!"
14. Pétur sagði: "Nei, Drottinn, engan veginn, aldrei hef ég etið neitt vanheilagt né óhreint."
15. Aftur barst honum rödd: "Eigi skalt þú kalla það vanheilagt, sem Guð hefur lýst hreint!"
16. Þetta gjörðist þrem sinnum, og jafnskjótt var hluturinn upp numinn til himins.
17. Meðan Pétur var að reyna að ráða í, hvað þessi sýn ætti að merkja, höfðu sendimenn Kornelíusar spurt uppi hús Símonar. Nú stóðu þeir fyrir dyrum úti
18. og kölluðu: "Er Símon sá, er nefnist Pétur, gestur hér?"
19. Pétur var enn að hugsa um sýnina, þegar andinn sagði við hann: "Menn eru að leita þín.
20. Flýt þér nú ofan og far hiklaust með þeim, því að ég hef sent þá."
21. Pétur gekk þá niður til mannanna og sagði: "Ég er sá sem þér leitið að. Hvers vegna eruð þér komnir hér?"
22. Þeir sögðu: "Kornelíus hundraðshöfðingi, réttlátur maður og guðhræddur og orðsæll af allri Gyðinga þjóð, fékk bendingu frá heilögum engli að senda eftir þér og fá þig heim til sín og heyra, hvað þú hefðir að flytja."
23. Þá bauð hann þeim inn og lét þá gista. Daginn eftir tók hann sig upp og fór með þeim og nokkrir bræður frá Joppe með honum.