Biblían á einu ári


Október 23


JESAJA 53:1-12
1. Hver trúði því, sem oss var boðað, og hverjum varð armleggur Drottins opinber?
2. Hann rann upp eins og viðarteinungur fyrir augliti hans og sem rótarkvistur úr þurri jörð. Hann var hvorki fagur né glæsilegur, svo að oss gæfi á að líta, né álitlegur, svo að oss fyndist til um hann.
3. Hann var fyrirlitinn, og menn forðuðust hann, harmkvælamaður og kunnugur þjáningum, líkur manni, er menn byrgja fyrir andlit sín, fyrirlitinn og vér mátum hann einskis.
4. En vorar þjáningar voru það, sem hann bar, og vor harmkvæli, er hann á sig lagði. Vér álitum hann refsaðan, sleginn af Guði og lítillættan,
5. en hann var særður vegna vorra synda og kraminn vegna vorra misgjörða. Hegningin, sem vér höfðum til unnið, kom niður á honum, og fyrir hans benjar urðum vér heilbrigðir.
6. Vér fórum allir villir vega sem sauðir, stefndum hver sína leið, en Drottinn lét misgjörð vor allra koma niður á honum.
7. Hann var hrjáður, en hann lítillætti sig og lauk eigi upp munni sínum. Eins og lamb, sem leitt er til slátrunar, og eins og sauður þegir fyrir þeim, er klippa hann, lauk hann eigi upp munni sínum.
8. Með þrenging og dómi var hann burt numinn, og hver af samtíðarmönnum hans hugsaði um það? Hann var hrifinn burt af landi lifenda, fyrir sakir syndar míns lýðs var hann lostinn til dauða.
9. Og menn bjuggu honum gröf meðal illræðismanna, legstað með ríkum, þótt hann hefði eigi ranglæti framið og svik væru ekki í munni hans.
10. En Drottni þóknaðist að kremja hann með harmkvælum: Þar sem hann fórnaði sjálfum sér í sektarfórn, skyldi hann fá að líta afsprengi og lifa langa ævi og áformi Drottins fyrir hans hönd framgengt verða.
11. Vegna þeirra hörmunga, er sál hans þoldi, mun hann sjá ljós og seðjast. Þá menn læra að þekkja hann, mun hann, hinn réttláti, þjónn minn, gjöra marga réttláta, og hann mun bera misgjörðir þeirra.
12. Fyrir því gef ég honum hina mörgu að hlutskipti, og hann mun öðlast hina voldugu að herfangi, fyrir það, að hann gaf líf sitt í dauðann og var með illræðismönnum talinn. En hann bar syndir margra og bað fyrir illræðismönnum.

JESAJA 54:1-17
1. Fagna, þú óbyrja, sem ekki hefir fætt! Hef upp gleðisöng, lát við kveða fagnaðaróp, þú sem eigi hefir haft fæðingarhríðir! Því að börn hinnar yfirgefnu munu fleiri verða en giftu konunnar, - segir Drottinn.
2. Víkka þú út tjald þitt, og lát þá þenja út tjalddúka búðar þinnar, meina þeim það ekki, gjör tjaldstög þín löng og rek fast hælana.
3. Því að þú munt útbreiðast til hægri og vinstri, og niðjar þínir munu eignast lönd þjóðanna og byggja eyddar borgir.
4. Óttast eigi, því að þú skalt eigi til skammar verða, lát eigi háðungina á þér festa, því að þú skalt eigi þurfa að fyrirverða þig. Því að þú skalt gleyma vanvirðu æsku þinnar og eigi framar minnast svívirðingar ekkjudóms þíns.
5. Því að hann, sem skóp þig, er eiginmaður þinn, Drottinn allsherjar er nafn hans. Og Hinn heilagi í Ísrael er frelsari þinn, Guð gjörvallrar jarðarinnar heitir hann.
6. Drottinn kallar þig sem yfirgefna konu og harmþrungna, og æskunnar brúður, sem verið hefir ein látin, - segir Guð þinn.
7. Skamma stund yfirgaf ég þig, en með mikilli miskunnsemi tek ég þig að mér.
8. Í ofurreiði minni byrgði ég auglit mitt fyrir þér um stund, en með eilífri líkn miskunna ég þér, - segir endurlausnari þinn, Drottinn.
9. Það fer eins fyrir mér með þetta og með Nóaflóð: Svo sem ég sór þá, að Nóaflóð skyldi ekki framar ganga yfir jörðina, eins sver ég nú að reiðast þér ekki né ávíta þig.
10. Því þótt fjöllin færist úr stað og hálsarnir riði skal mín miskunnsemi við þig ekki færast úr stað og minn friðarsáttmáli ekki raskast, - segir miskunnari þinn, Drottinn.
11. Þú hin vesala, hrakta, huggunarlausa! Sjá, ég legg rúbína sem steina í bygging þína og hleð grunnmúra þína af safírsteinum.
12. Ég gjöri múrtinda þína af jaspis og hlið þín af roðasteinum og allan ummerkjagarð þinn af dýrindissteinum.
13. Allir synir þínir eru lærisveinar Drottins og njóta mikils friðar.
14. Fyrir réttlæti munt þú stöðug standa. Álít þig fjarlæga ofríki, því að þú þarft ekki að óttast, og fjarlæga skelfingu, því að hún skal ekki koma nærri þér.
15. Ef nokkur áreitir þig, þá er það ekki að mínum vilja. Hver sem áreitir þig, skal falla fyrir þér.
16. Sjá, ég skapa smiðinn, sem blæs að kolaeldinum og framleiðir vopnið til sinnar notkunar, og ég skapa eyðandann til þess að leggja í eyði.
17. Engin vopn, sem smíðuð verða móti þér, skulu verða sigurvænleg, og allar tungur, sem upp rísa gegn þér til málaferla, skalt þú kveða niður. Þetta er hlutskipti þjóna Drottins og það réttlæti, er þeir fá hjá mér - segir Drottinn.

SÁLMARNIR 113:1-4
1. Halelúja. Þjónar Drottins, lofið, lofið nafn Drottins.
2. Nafn Drottins sé blessað héðan í frá og að eilífu.
3. Frá sólarupprás til sólarlags sé nafn Drottins vegsamað.
4. Drottinn er hafinn yfir allar þjóðir og dýrð hans yfir himnana.

ORÐSKVIÐIRNIR 26:17-19
17. Sá, sem kemst í æsing út af deilu, sem honum kemur ekki við, hann er eins og sá, sem tekur um eyrun á hundi, er hleypur fram hjá.
18. Eins og óður maður, sem kastar tundurörvum, banvænum skeytum,
19. eins er sá maður, er svikið hefir náunga sinn og segir síðan: "Ég er bara að gjöra að gamni mínu."

EFESUSMANNA 3:1-21
1. Þess vegna er það, að ég, Páll, bandingi Krists Jesú vegna yðar, heiðinna manna, beygi kné mín.
2. Víst hafið þér heyrt um þá ráðstöfun Guðs náðar, sem hann fól mér hjá yður:
3. Að birta mér með opinberun leyndardóminn. Ég hef stuttlega skrifað um það áður.
4. Þegar þér lesið það, getið þér skynjað, hvað ég veit um leyndardóm Krists.
5. Hann var ekki birtur mannanna sonum fyrr á tímum. Nú hefur hann verið opinberaður heilögum postulum hans og spámönnum í andanum:
6. Heiðingjarnir eru í Kristi Jesú fyrir fagnaðarerindið orðnir erfingjar með oss, einn líkami með oss, og eiga hlut í sama fyrirheiti og vér.
7. Ég varð þjónn þessa fagnaðarerindis, af því að Guð gaf mér gjöf náðar sinnar með krafti máttar síns.
8. Mér, sem minnstur er allra heilagra, var veitt sú náð að boða heiðingjunum fagnaðarerindið um hinn órannsakanlega ríkdóm Krists
9. og að upplýsa alla um það, hvernig Guð hefur ráðstafað þessum leyndardómi. Hann hefur frá eilífð verið hulinn í Guði, sem allt hefur skapað.
10. Nú skyldi kirkjan látin kunngjöra tignunum og völdunum í himinhæðum, hve margháttuð speki Guðs er.
11. Þetta er Guðs eilífa fyrirætlun, sem hann hefur framkvæmt í Kristi Jesú, Drottni vorum.
12. Á honum byggist djörfung vor. Í trúnni á hann eigum vér öruggan aðgang að Guði.
13. Fyrir því bið ég, að þér látið eigi hugfallast út af þrengingum mínum yðar vegna. Þær eru yður til vegsemdar.
14. Þess vegna beygi ég kné mín fyrir föðurnum,
15. sem hvert faðerni fær nafn af á himni og jörðu.
16. Megi hann gefa yður af ríkdómi dýrðar sinnar að styrkjast fyrir anda sinn að krafti hið innra með yður,
17. til þess að Kristur megi fyrir trúna búa í hjörtum yðar og þér verða rótfestir og grundvallaðir í kærleika.
18. Þá fáið þér ásamt öllum heilögum skilið, hve kærleikur Krists er víður og langur, hár og djúpur, og komist að raun um hann,
19. sem gnæfir yfir alla þekkingu, og náið að fyllast allri Guðs fyllingu.
20. En honum, sem í oss verkar með krafti sínum og megnar að gjöra langt fram yfir allt það, sem vér biðjum eða skynjum,
21. honum sé dýrð í kirkjunni og í Kristi Jesú um öll æviskeið, öld eftir öld. Amen.